Ríkir Rússar í landaleit

Fjórir rússneskir auðmenn stoppuðu við í Bjarnabúð í Reykholti í Biskupstungum á dögunum á ferð sinni um Ísland í leit að hentugu landsvæði til að kaupa.

Rússarnir lentu þyrlu á bílastæðinu við búðina og héldu áfram til Rangárvallasýslu eftir nokkurra mínútna stopp. Þaðan héldu þeir áfram út á Reykjanes. Daginn eftir stóð til að halda til Anchorage í Alaska í sömu erindagjörðum. Ekki er ljóst hvort ferðalangarnir höfðu augun á sérstökum landeignum að þessu sinni.

Það er ferðskrifstofan Luxury Adventures sem stóð fyrir þessari ferð og segir Karl Ólafsson, framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs fyrirtækisins, ferðina vera skipulagða út í ystu æsar. Bílar bíði til taks á öllum áfangastöðum ef veður hindrar útsýnisflug líkt og kom reyndar fyrir um morguninn við Gullfoss. Hann var þá til taks á svæðinu en annar bíll beið við Rangá og sá þriðji við Reykjavík.

Karl fékkst ekki til að gefa upp hverjir ferðalangarnir væru en sagði þau öll vera ágætis fólk og hin þægilegustu í samvinnu.

Íbúum Reykholts í Biskupstungum brá heldur betur í brún þegar þyrlan lenti á planinu við Bjarnabúð. Sumum varð ekki um sel vegna þess hve þröng lendingaraðstaðan var en Karl segir þyrluflugmanninn hafa gert þetta oft áður og raunar hafi Bjarnabúð verið nauðsynlegt stopp í dagskrá dagsins áður en haldið var austur í Rangárvallasýslu.

Fyrri greinAftur til starfa eftir tveggja ára eldgosahlé
Næsta greinFimm handteknir vegna kannabisræktunar