Vill kvennafangelsi á Sogni

Ari Björn Thorarensen, forseti bæjarstjórnar Árborgar, vill að kvennafangelsið í Kópavogi flytji starfsemi sína að Sogni í Ölfusi.

Ritstjórn vekur athygli á því að þessi frétt er frá árinu 2011

Auk þess vill Ari að starfsemi Hegningarhússins við Skólavörðustíg verði flutt í húsnæðið í Kópavogi. Með því geti ríkið sparað sér þá tvo milljarða króna, sem kostar að byggja nýtt fangelsi á Hólmsheiði.

Þingmenn Suðurkjördæmis hittu sveitarstjórnarmenn í Árnessýslu á fundi í Ráðhúsi Ölfuss í Þorlákshöfn í dag þar sem var farið yfir helstu málin sem brenna á sveitarstjórnarmönnum. Sú ákvörðun að loka réttargeðdeildinni að Sogni var mikið rædd og kynnti Ari þar hugmynd sína um framtíðarnotkun húsnæðisins að Sogni.

„Þá datt mér nú bara í hug hvort það væri ekki mjög æskilegt að flytja fangelsið á Kópavogsbraut 17, Kvennafangelsið, með manni og mús austur að Sogni og Hegningarhúsið við Skólavörðustíg upp í Kópavog. Ég held að það gæti leyst margan vanda. Þarna gætum við fjölgað um örfá rými með því að flytja fangelsið austur að Sogni og breytt fangelsinu í Kópavogi í móttökufangelsi,“ sagði Ari í samtali við RÚV.

Ari segir að með hugmynd sinni sé búið að leysa bráðavanda fangelsanna og því þurfi ekki að byggja nýtt fangelsi. „Ég held að ríkið gæti sparað á þessu tvo milljarða. Það yrði hætt við uppbyggingu á gæsluvarðhaldsfangelsi á Hólmsheiði sem innanríkisráðherra hefur kynnt. Það væri hægt að spara þá uppbyggingu með örlitlum lagfæringum á Litla Hrauni og færslu þangað austur í Ölfus.

RÚV greindi frá þessu

Fyrri greinSjúkraliðar mótmæla niðurskurði
Næsta greinÞremur styrkjum úthlutað