Þorláksbúð í smíðum

Öll tilskilin leyfi til byggingar Þorláksbúðar í Skálholti liggja fyrir, að sögn talsmanns Þorláksbúðarfélagsins, þingmannsins Árna Johnsen.

„Þetta var allt formlega samþykkt og fengust leyfi fyrir öllum framkvæmdum frá réttum aðilum. Það er verið að smíða á fullu og gengur bara vel. Það má alltaf reikna með skiptum skoðunum, það er bara eðlilegt, en allt þetta mál hefur verið í eðlilegum farvegi,“ segir Árni.

Fram hefur komið gagnrýni á framkvæmdina sem þykir m.a. vera til óþurftar og smekklaus en Þorláksbúð á að standa við hlið Skálholtskirkju. Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag segir Árni Sigurð heitinn Sigurðarson, vígslubiskup í Skálholti, hafa verið forvígismann þess að Þorláksbúðarfélagið var stofnað.

Byggingin verður um 35 fermetrar að flatarmáli þegar hún er fullbúin og mun væntanlega hýsa bæði kirkjulegar athafnir sem og menningaruppákomur.

Búðin er kennd við Þorlák helga Þórhallson, verndardýrling Íslands, sem var biskup í Skálholti undir lok 12. aldar, en óvíst er hvenær hún var fyrst byggð. Hún var ýmist notuð sem skrúðhús, geymsla eða kirkja þegar stóru kirkjurnar brunnu.

Fyrri greinMýrdælingur kemur að stærstu kvikmyndaverkefnum
Næsta greinLjósi varpað á „týnda félagið“