Stefnt að því að ráða um 20 manns

Að sögn Jóns Páls Kristóferssonar, rekstrarstjóra, er unnið að því að fjölga fólki í fiskvinnslu Ramma í Þorlákshöfn en hann á von á að a.m.k. 20 manns verði ráðnir á næstu tveimur mánuðum.

Síðustu mánuðina hafa þorskur og karfi verið unnin í fiskvinnslu Rammans í Þorlákshöfn. Karfinn er flakaður og fluttur út ferskur eða frystur en þorskurinn flakaður, léttsaltaður og frystur fyrir Suður-Evrópumarkað. Humarveiðar- og vinnsla hefjast svo að venju í aprílmánuði.

Jón sagðist eiga von á því að humarvertíðin yrði með líku sniði og síðasta ár enda kvótastaðan svipuð. Varðandi söluhorfur sagði hann að rólegt hefði verið á mörkuðum úti í byrjun árs sem er hefðbundið en salan hefði gengið vel í fyrra og ekki annað fyrirsjáanlegt í ár. Þá má geta þess að Múlabergið fer á rækjuveiðar innan skamms og landar í rækjuvinnslu Ramma á Siglufirði.

Fyrri grein„Spilum með myrkur í hjarta”
Næsta greinLandsmót 50+ á Hvammstanga