4000 jólastjörnur brunnu

Eldur kom upp í Garðyrkjustöð Ingibjargar við Laufskóga í Hveragerði klukkan hálf sjö í morgun. Slökkvistarf gekk greiðlega en tjónið er mikið.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er talið að kviknað hafi í geymsluskúr sem er samliggjandi við garðyrkjustöðina. Engin slys urðu á fólki.

Margir hringdu í lögreglu og tilkynntu um sprengingu í húsinu en mikill eldur var í húsinu og gekk greiðlega að slökkva hann. Slökkvistarfi var lokið um klukkan átta í morgun. Um fjögur þúsund jólastjörnur voru ræktaðar í húsinu sem voru um það bil að fara á markað. Þær eru allar ónýtar. Auk jólastjarnanna skemmdust bergfléttur sem sérstaklega voru ætlaðar til sölu fyrir jólin.

Upptök eldsins eru ekki kunn en málið er í rannsókn hjá lögreglunni á Selfossi.

Fyrri greinGreiða erlent lán að fullu
Næsta greinNeita Þingvallagjaldi á ferðaþjónustu eina