Góð netaveiði í Ölfusá

Að sögn Jörundar Gaukssonar í Kaldaðarnesi hefur fiskgengd í Ölfusá verið góð það sem af er sumri og augljóst að skilyrði í sjónum væru góð.

Jörundur leggur net út frá Kaldaðarnesi í Ölfusá og hefur lokið veiði þetta sumarið. 352 laxar veiddust í net út af Kaldaðarnesi og allnokkuð af sjóbirtingi. ,,Fiskurinn er feitur og fallegur og það bar meira á tveggja ára fiski en undanfarin ár,“ sagði Jörundur sem er formaður Veiðifélags Árnessinga.

Hinum megin árinnar, í landi Auðsholts, hafa verið netalagnir út af Stapaklettum og hefur einnig fiskast vel þar, á milli 20 og 30 fiskar í lögn en ekki er vitað hvað heildarmagnið er mikið. Net í ánni eru lögð út frá þriðjudegi til föstudags. Heimilt er að veiða til 10. ágúst og svo aftur eftir 20. ágúst.

Auk þessara bæja eru lögð net út frá landi Hrauns, Kirkjuferju og Arnarbælis. Þá eiga Sandvíkurbæirnir og Stekkar rétt til netaveiða. Ofar í ánni eiga síðan Oddgeirshólar, Brúnastaðir og Litlu-Reykir rétt til netaveiða ásamt Laugardælum en þar voru um 550 laxar komnir á land fyrir verslunarmannahelgi.

Fyrri greinTekjuhæstu Sunnlendingarnir
Næsta greinHugmynd um kornþurrkun við Þjórsá