Tekjur hafnarinnar af ferjuflutningum langt umfram væntingar

Mykines við bryggju í Þorlákshöfn. Ljósmynd/Vignir Arnarson

Lagt er til að Alþingi skipi starfshóp til að móta stefnu um hvernig standa megi að innviðauppbyggingu hafnarinnar í Þorlákshöfn, í þingsályktun sem lögð hefur verið fram á Alþingi.

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er fyrsti flutningsmaður. Í tillögunni er markmiðið sagt vera að byggja upp höfnina svo hún geti frekar vaxið sem inn-og útflutningshöfn.

RÚV greinir frá þessu.

Starfshópurinn myndi samkvæmt þingsályktunartillögunni skila tillögum til ráðherra í síðasta lagi 1. maí á næsta ári. Starfshópurinn leggi til hvernig bæta megi og auka öryggi og dýpi í og við innsiglingu í höfnina. Sömuleiðis hvernig best verði náð árangri í markaðssetningu hafnarinnar bæði innanlands og utan.

Í greinargerð tillögunnar kemur fram að í apríl í fyrra hafi færeyska félagið Smyril Line Cargo hafið ferjuskipaflutninga með ferjunni Mykinesi á milli Rotterdam í Hollandi og Þorlákshafnar með viðkomu í Þórshöfn í Færeyjum. Strax á þessu fyrsta ári hafi þessi tilraun skilað höfninni tekjum langt umfram væntingar.

„Með tilkomu þessarar siglingaleiðar hafa farmgjöld til og frá landinu lækkað flutningskostnað einstaklinga og fyrirtækja um 40% en það er helsta ástæðan fyrir þeirri velgengni sem Þorlákshöfn og Smyril Line Cargo hafa notið. Smyril Line, sveitarfélagið Ölfus og hafnaryfirvöld í Þorlákshöfn undirrituðu samning til sex ára 24. maí sl. sem tryggir Þorlákshöfn meiri og öruggari tekjur en á reynsluárinu,“ segir í greinargerðinni.

Frétt RÚV

Fyrri greinFjögur HSK met á bætingamótum
Næsta greinKröfu um ógildingu íbúakosninganna hafnað