Ráfandi á sokkaleistunum í alvarlegu geðrofi

Lögreglustöðin á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ungur maður var vistaður í fangaklefa um síðustu helgi eftir að hann fannst ráfandi á sokkaleistunum á Selfossi í alvarlegu geðrofi. Maðurinn taldi sig vera af öðrum heimi og ófær um að gæta öryggis síns.

Í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi kemur fram að ekki fékkst pláss á viðeigandi sjúkrastofnun vegna vímuástands mannsins og að endingu tóku aðstandendur hans við honum.

„Ljóst er að allir þeir sem láta sig uppeldi varða, þar á meðal fjölmiðlar, þurfa að taka ábyrgð á því samfélagi sem við búum í og halda á lofti skaðsemi kannabisefna. Óábyrgum aðilum hefur undanfarin ár liðist að fjalla gagnrýnilaust um þessi efni í fjölmiðlum líkt og neysla þeirra sé fólki skaðlaus,“ segir í dagbók lögreglunnar.

Tilfinning lögreglumanna er að í mjög vaxandi mæli séu að koma upp afskipti af einstaklingum sem eru, vegna langvarandi kannabisneyslu, í geðrofi og engin leið að ná til viðkomandi.
Á síðustu tveimur vikum hefur lögreglan haft afskipti af níu einstaklingum sem hafa verið með lítilræði af fíkniefnum á sér.
Fyrri greinTafarlausar breytingar á skólaakstri í Ölfusi
Næsta greinVegleg gjöf frá SSK til HSU