Viðbygging í Þorlákshöfn tefst til næsta árs

Framkvæmdir við viðbyggingu íþróttahússins í Þorlákshöfn eru skemmra á veg komnar en vonir stóðu til og til marks um það hafa eingöngu um 16% af áætluðum kostnaði komið til greiðslu.

Þetta kemur fram í minnisblaði frá verkfræðistofunni Eflu sem lagt var fyrir bæjarráðsfund í Ölfusi í morgun.

Um síðustu mánaðamót hefur verið unnið við verkið fyrir rétt tæpar 35 milljónir króna en gróf kostnaðaráætlun miðar við að heildarkostnaður við verkið muni verða rúmlega 218,5 milljónir króna. Inni í þeirri tölu er gert ráð fyrir um 15 milljónum króna í annað, ófyrirséð og aukaverk.

Hönnunarvinnu ekki lokið
Fyrir liggur að framleiðsla á límtré í viðbygginguna er ekki áætlað fyrr en í fyrsta lagi í nóvember og því ljóst að verkið mun tefjast til næsta árs.

Í lok minnisblaðs Eflu kemur fram að ýmislegt eigi enn eftir að ákveða og hanna í byggingunni og það muni hafa töluverð áhrif á endanlega kostnað við verkið.

Á fundinum í morgun var bæjarstjóra falið að láta ljúka fullnaðarkostnaðarmati við verkið og í framhaldi af því að vinna áfangaskipta verkáætlun og leggja fyrir bæjarráðið til umfjöllunar. Að því loknu verður verkið eftir atvikum boðið út eða samið um einstaka liði þess þannig að hægt verði að taka viðbygginguna í notkun fyrir skólaárið 2019-2020.

Fyrri greinRefaskyttan beint í fyrsta sæti
Næsta greinÁtta keppendur á héraðsmóti í golfi fatlaðra