Samið um smáþörungarækt í Jarðhitagarði ON

ON hefur samið við alþjóðlega sprotafyrirtækið Algaennovation um aðstöðu og ýmis orkutengd aðföng fyrir ræktun smáþörunga í Jarðhitagarði ON við Hellisheiðarvirkjun.

Úr þörungunum verður framleitt fóður fyrir skepnur og hugsanlega til manneldis. Algaennovation er í eigu vísindamannanna sem stofnuðu fyrirtækið auk íslenskra fyrirtækja og fjárfesta.

Það voru Bjarni Már Júlíusson, framkvæmdastjóri ON, og Isaac Berzin, einn frumkvöðlanna að baki Algaennovation, sem undirrituðu samninginn í Hellisheiðarvirkjun síðastliðinn föstudag.

Smáþörungar eru örsjávarplöntur sem fjölga sér hratt og fá orku sína og næringu úr ljósi og koltvíoxíði, það er ljóstillífa. Í náttúrunni eru smáþörungar uppspretta margskonar næringarefna á borð við Omega-3 fitusýrur, andoxunarefni og litarefni. Öll þessi efni eru lykilþættir í mataræði bæði manna og dýra.

Fyrir milligöngu fjárfestingasviðs Íslandsstofu komst á samband milli ON og Algaennovation og á haustmánuðum 2017 hóf fyrirtækið tilraunaræktun á smáþörungum við Hellisheiðarvirkjun. ON útvegaði aðstöðu, rafmagn, heitt og kalt vatn og koltvíoxíð til tilraunanna. Þær gengu framar vonum. Algaennovation hefur því ákveðið að taka næsta skref og er stolt af því að hefja byggingu á smáþörungaframleiðslu innan Jarðhitagarðs ON, sem verður sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Áformað er að hefja framleiðslu á fóðri til seiðaeldis um mitt næsta ár.

Samningurinn, sem undirritaður var á föstudag, er til 15 ára og fjallar um sölu ON á rafmagni og öðrum aðföngum til ræktunar örþörunganna í Jarðhitagarðinum.

Fyrri greinStakkaskipti í fjárhúsi
Næsta greinLeitað að vitnum að líkamsárás