Óttast um flugvél sem lenti á Selfossi

Mikill viðbúnaður var hjá Landhelgisgæslunni, slökkviliði, lögreglu og björgunarsveitum á þriðja tímanum í dag eftir að neyðarboð barst frá flugvél ofan af Miðdalsheiði.

Vélinni var hins vegar lent vandræðalaust á Selfossi laust eftir klukkan þrjú og var viðbragðslið þá afturkallað.

RÚV greinir frá þessu.

Þegar ekki náðist samband við vélina eftir að neyðarsendir hennar fór af stað óttuðust menn það versta. Þyrla Landhelgisgæslunnar var send á vettvang og björgunarsveitir ræstar út, auk þess sem slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu sendi fjallajeppa og fjórhjól af stað og lögreglan hóf leit með dróna.

Búið var að umkringja staðinn þaðan sem neyðarboðið barst, rétt austan við Selvatn, þegar fréttist að vélin væri lent á Selfossi.

Frétt RúV

Fyrri greinMeirihluti hlynntur nýja skipulaginu
Næsta greinTokic með þrennu í stórsigri Selfoss