Töðugjöld framundan á Hellu

Töðugjöld verða haldin dagana 17. og 18. ágúst næstkomandi. Töðugjöld eru með elstu bæjarhátíðum landsins og hátíðin í ár verður sú 25. í röðinni.

Að venju verður mikið um dýrðir, mikið er lagt upp úr því að öll fjölskyldan geti komið og skemmt sér saman og því er eitthvað um að vera fyrir alla, alla helgina.

Töðugjöld hefjast á föstudeginum með frisbígolfmóti Arionbanka og um kvöldið verður þorparölt um gula hverfið á Hellu.

Laugardagurinn er svo hlaðinn dagskrá og hefst hún með hressandi morgungöngu um Hellu, morgunmat þar sem harmonikkufélag Rangæinga kemur fram ásamt því að fram fer hnallþórukeppni, umhverfisverðlaun Rangárþings ytra 2018 verða veitt og Íþróttamaður Rangárþings ytra 2017 fær viðurkenningu.

Knattspyrnufélag Rangæinga mun keppa við Stál-Úlf á íþróttavellinum á Hellu. Þar verða einnig hoppukastalar, loftboltar, Bíbí og Björgvin, markaðstjald, bíla- og tækjasýning, Postularnir mæta á svæðið og fleira.

Héraðsmót HSK í starfsíþróttum, söngkeppni barna og fegurðar- og hæfileikakeppni dýranna fer einnig fram við íþróttavöll. Kvöldvaka verður svo á íþróttavellinum á laugardagskvöldinu en þar koma m.a. fram Jói Pé og Króli, Lalli töframaður, Ingó mun leiða brekkusöng og kvöldvökunni lýkur svo með glæsilegri flugeldasýningu.

Lokaviðburður hátíðarinnar verður svo alvöru reiðhallarball í Rangárhöllinni þar sem fram koma ásamt Stuðbandinu Sigga Beinteins, Helgi Björns og Stebbi Jak.

Fyrri greinLeyfa próflausum börnum að keyra
Næsta greinMarkaði djúp spor í viðgerð Ölfusárbrúar