Brjálað stuð á Sumar á Selfossi

Berghólar var valin skemmtilegasta gatan á bæjarhátíðinni Sumar á Selfossi sem lýkur í dag.

„Þetta gekk allt saman eins og í sögu og það var brjálað stuð í gærkvöldi. Maður heyrir ekki annað en að íbúarnir séu hamingjusamir eftir þessa frábæru daga,“ sagði Hafþór Theodórsson, forseti Knattspyrnufélags Árborgar, í samtali við sunnlenska.is, en félagið sér um framkvæmd hátíðarinnar.

Hátíðin hófst síðastliðinn fimmtudag og var dagskráin mjög fjölbreytt. Hápunktar hátíðarinnar voru að venju morgunmaturinn í miðbænum á laugardagsmorgun og sléttusöngurinn í Sigtúnsgarði í gærkvöldi, sem lauk með glæsilegri flugeldasýningu og sveitaballi með Stuðlabandinu.

Eins og síðustu ár tóku íbúar vel við sér í skreytingakeppninni og var hún mjög hörð þetta árið. Berghólar voru, sem fyrr segir, valin skemmtilegasta gatan og bleika hverfið var valið skemmtilegasta hverfið. Best skreytta húsið var valið Lóurimi 1 og fær fjölskyldan þar út að borða á Kaffi Krús, bíómiða og ís á eftir frá nefndinni.

Fyrri greinGestirnir skoruðu fimm mörk
Næsta grein„Erum með áfast bros allan daginn“