Kátt á hjalla á opnu húsi við Búrfell

Hátt í 700 manns mættu á opið hús Landsvirkjunar við Búrfell í gær, sunnudag. Eins og fram kom í fyrri frétt er Búrfellsstöð II nú komin í rekstur.

Gafst gestum færi á að skoða þessa nýjustu aflstöð Íslendinga, 18. aflstöð Landsvirkjunar, sem gangsett var fimmtudaginn síðasta, 28. júní. Ungir sem aldnir sýndu mannvirkjum á svæðinu mikinn áhuga og nutu veðurblíðunnar við Búrfell.

Auk skoðunarferða um nýjustu aflstöðina, sem byggð er inn í Sámsstaðaklif á milli Búrfells og Sámsstaðamúla, var boðið upp á skoðunarferðir um Búrfellsstöð, sem var fyrsta aflstöð Landsvirkjunar, gangsett fyrir tæpum 50 árum.

Fræddi starfsfólk Landsvirkjunar gesti um starfsemi og sögu beggja aflstöðva. Léttar veitingar voru í boði og fékk unga fólkið að spreyta sig á vindmyllugerð undir leiðsögn Vísindasmiðju Háskóla Íslands.

Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum var kátt á hjalla og skemmtu gestir á öllum aldri sér vel.

Fyrri grein24 sækja um sveitarstjórastarf í Bláskógabyggð
Næsta greinTokic í Selfoss