Sigurður og Birta taka við rekstri Menam

Sigurður Ágústsson og Birta Jónsdóttir hafa keypt rekstur veitingastaðarins Menam á Selfossi af Kristínu Árnadóttur.

Kristín hefur rekið þennan rótgróna stað við Eyraveg á Selfossi undanfarin tuttugu ár. Nýju eigendurnir þekkja fagið vel en Sigurður hefur meðal annars átt sæti í kokkalandsliði Íslands.

„Við höfum stefnt að því að opna okkar eigin stað frá því að Siggi byrjaði á nemasamning og þykir okkur ótrúlega dýrmætt að hafa náð þessu markmiði. Menam hefur alltaf verið draumastaðsetningin okkar og okkur þykir það ótrúlegur heiður að Stína hafi valið okkur í það verkefni að taka við Menam,“ segir Birta.

„Við komum til með að gera allt sem í okkar valdi stendur til að halda heiðri staðarins á lofti og endurskapa það frábæra andrúmsloft sem þar hefur alltaf ríkt þó að staðurinn fái andlitslyftingu þegar dregur nær haustinu. Verðandi breytingar á staðnum og matseðlinum ætlum við að kynna eftir að við tökum við rekstrinum þann 17. júlí næstkomandi.“

Fyrri greinHornsteinn lagður að Búrfellsstöð II og stöðin gangsett
Næsta greinRangæingar komnir á botninn