Suðurstrandarvegi lokað að hluta á sunnudagsmorgun

Suðurstrandarvegur verður lokaður að hluta fyrir hádegi sunnudaginn 24. júní vegna Íslandsmótsins í hjólreiðum.

Keppnin er ræst frá Íþróttamiðstöðinni í Grindavík kl. 9:00 og hjólað um Suðurstrandarveg og Krýsuvíkurveg. Krýsuvíkurvegur verður lokaður frá kl. 10:00 til 12:30 en Suðurstrandarvegur verður lokaður í austurátt, frá Grindavík að Krýsuvíkurafleggjara milli kl. 9:00 og 12:30. Akreinin til vesturs verður opin en allir bílar á leið til Grindavíkur verða stöðvaðir og varaðir við því að hjólreiðakeppni fari fram á veginum. Ökumenn eru beðnir um að sýna sérstaka aðgát en þarna eru meðal annars ungir keppendur að keppa, krakkar frá 13 ára aldri.

Keppt er í fimm flokkum karla og kvenna og þeir sem hjóla lengstu leiðina fara 141 kílómetra, frá Grindavík til Þorlákshafnar og aftur til baka með viðkomu í Krýsuvík.

Það eru hjólreiðafélögin Bjartur í Hafnarfirði, UMFG í Grindavík og reiðhjóladeild Víkings Reykjavík sem standa að mótinu. Björgunarsveitin Mannbjörg í Þorlákshöfn mun sjá um veglokanirnar.

Fyrri greinSunnlendingar á toppnum
Næsta greinVinningshafinn var af höfuðborgar-svæðinu