„Góðar viðræður og góður samhljómur hjá flokkunum“

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og óháðra, Miðflokksins og Áfram Árborgar skrifuðu í morgun undir meirihlutasamstarf flokkanna í Sveitarfélaginu Árborg.

Nýr meirihluti mun taka við stjórn sveitarfélagsins á næsta bæjarstjórnarfundi, þann 13. júní næstkomandi. Helgi S. Haraldsson, B-lista, verður forseti bæjarstjórnar og Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, verður formaður bæjarráðs.

Formennska í fræðslunefnd og félagsmálanefnd verður hjá Samfylkingunni, íþrótta- og menningarnefnd hjá Framsókn og óháðum, Áfram Árborg fer með formennsku í skipulags- og bygginganefnd og Miðflokkurinn með formennsku í framkvæmda- og veitustjórn.

Auglýst eftir nýjum bæjarstjóra

„Við höfum átt mjög góðar viðræður og þessir flokkar eiga góðan samhljóm í sínum stefnumálum. Þannig að það voru ekki mikil átakamál og menn sammála um að ræða sig niður á niðurstöðu sem allir væru sáttir við. Það verða ákveðnar breytingar þegar koma aðrir flokkar að völdum. Í fyrsta lagi erum við sammála um að auglýst verði eftir nýjum bæjarstjóra og í haust förum við svo í það að gera stefnumarkandi áætlanir og framtíðarsýn fyrir sveitarfélagið,“ sagði Helgi Sigurður, við undirritun málefnasamningsins.

Eggert Valur segir að allar breytingar verði unnar í góðu samstarfi við starfsfólk sveitarfélagsins og íbúa.

„Þó að það sé að koma nýr meirihluti þá verða engar hallarbyltingar á næstu vikum heldur ætlum við að gefa okkur góðan tíma til að ræða við starfsfólk. Áður en við förum að hrinda okkar hugmyndum í framkvæmd þá ætlum við að leitast eftir því að gera það í eins góðu samstarfi við starfsfólk og íbúa og mögulegt er,“ segir Eggert Valur.

Átak í atvinnumálum og unga fólkið virkjað
Í málefnasamningnum segir að hann sé grundvallaður af lýðræðislegri stjórnsýslu, aukinni velferð og átaki í atvinnumálum.

Meirihlutinn ætlar að veita fyrirmyndar þjónustu á sviði menntunar, menningar, velferðarþjónustu og stjórnsýslu. Meirihlutinn ætlar að standa vörð um þennan rekstur, hlúa að þeim sem fyrir eru og skapa aðstæður fyrir nýja starfsemi. Brýnt sé að hækka launastig á svæðinu með því að laða að nýja starfsemi og fjölga störfum innan sveitarfélagsins.

Þá verður sett af stað undirbúningur og vinna við að virkja sérstaklega ungt fólk við stjórnun og framtíðarþróun sveitarfélagsins.

Undirritun málefnasamningsins fór fram við Húsið á Eyrarbakka og sátu fulltrúar framboðanna við borð úr gamla Þorlákshafnarbænum. Á myndinni eru (f.v.) Helgi S. Haraldsson, B-lista, Tómas Ellert Tómasson, M-lista, Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, Eggert Valur Guðmundsson, S-lista og Sigurjón Vídalín Guðmundsson, Á-lista.

Fyrri greinNýr meirihluti í Árborg kynntur á morgun
Næsta greinTólf ára drengur fluttur með þyrlu á sjúkrahús