Búist við vatnavöxtum á Suðurlandi

Búist er við mikilli úrkomu á Suður- og Suðvesturlandi frá aðfaranótt laugardagsins 26. maí og út helgina. Mest úrkoma verður á vatnasviði Hvítár í Borgarfirði og Hvítár í Árnessýslu.

Þetta kemur fram í athugasemdum vakthafandi sérfræðings á Veðurstofunni.

Einkum má búast við miklum staðbundnum vatnavöxtum undir Eyjafjöllum og í Þórsmörk. Úrkoma verður mikil við Jökulsá á Sólheimasandi og eru ferðamenn á því svæði beðnir um að sýna aðgát.

Vatn gæti safnast upp meðfram vegum og því gæti flætt yfir þá, einkum á Mýrdalssandi t.d. við Múlakvísl. Aukin hætta verður á skriðuföllum.

Þar sem úrkoman er óvenjulega mikil ættu ferðalangar að sýna ítrustu varúð á þessu svæði.

Fyrri greinÁrborg og Björg semja til 2022
Næsta greinVegagerðin fellst á tengingu við Tryggvatorg