Listasafnið tilnefnt til Safnaverðlaunanna 2018

Listasafn Árnesinga í Hveragerði hefur verið tilnefnt til Íslensku safnaverðlaunanna 2018 ásamt Grasagarðinum Reykjavík og Varðveislu- og rannsóknarsetri Þjóðminjasafns Íslands.

Íslensku safnaverðlaunin er viðurkenning veitt annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi. Sem fyrr gátu almenningur, stofnanir og félagasamtök sent inn ábendingar um safn eða einstök verkefni á starfssviði safna sem þykja til eftirbreytni og íslensku safnastarfi til framdráttar.

Byggðasafn Árnesinga hlaut verðlaunin árið 2002.

Valnefnd tilnefndi söfnin þrjú og hlýtur eitt þeirra viðurkenninguna Safnaverðlaun 2018 og 1.000.000 króna að auki. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson afhendir verðlaunin við hátíðlega athöfn þann 5. júní á Bessastöðum.

Í tilnefningu dómnefndar um Listasafn Árnesinga segir að safnið bjóði upp á fjölbreyttar og metnaðarfullar sýningar sem veita gott aðgengi að myndlistararfi þeim sem það varðveitir. Safnið kynnir einstaka listamenn á einka- og samsýningum og hefur verið í samstarfi við önnur söfn um sýningar um árabil. Útgáfur safnsins eru til fyrirmyndar þar sem gefin er út vönduð sýningarskrá í tengslum við hverja sýningu, sem er mikilvæg heimild um starf og sýningar safnsins. Mat valnefndar er að sú áhersla í sýningarhaldi sem fylgir meginmarkmiði Listasafns Árnesinga um að efla áhuga, þekkingu og skilning almennings á sjónlistum sé til fyrirmyndar. Safnið beitir árangursríkum aðferðum í fræðslu með umræðum og uppákomum, sem bera vitni um metnað, fagmennsku og nýsköpun.

Fyrri greinKristrún komin heim
Næsta greinUnnið að stækkun íþróttahússins í Þorlákshöfn