„Það skilja allir hættuna sem um er að ræða“

Brunavörnum Árnessýslu bárust ábendingar eftir síðasta leik Selfoss og FH í Vallaskóla í undanúrslitaeinvígi Íslandsmótsins í handbolta að rýmingarleiðum úr áhorfendastúkunni væri ábótavant miðað við áhorfendafjöldann.

Handknattleiksdeild Selfoss hefur undanfarin ár miðað við að 740 áhorfendur komist fyrir í stúkunni en í gegnum tíðina hefur áhorfendafjöldinn verið ennþá meiri á stórleikjum. Samkvæmt heimildum sunnlenska.is voru 798 áhorfendur á síðasta leik í Vallaskóla og mjög þétt setinn bekkurinn.

Nokkrar kvartanir frá áhyggjufullum Selfyssingum
„Það komu nokkrar kvartanir inn á borð til okkar frá áhyggjufullum áhorfendum eftir síðasta leik,“ sagði Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri, í samtali við sunnlenska.is. Aðspurður hvort um áhyggjufulla FH-inga hafi verið að ræða sagði Pétur að svo væri ekki, heldur hefðu ábendingarnar komið frá Selfyssingum.

„Þetta hús er byggt árið 1978 og við höfum sofið á verðinum hvað þetta varðar. Dæmin hafa sýnt ef styggð kemur af svona stórum hópi þá er hætta á að þeir yngstu troðist undir og það viljum við ekki sjá gerast. Þarna voru flóttaleiðir fyrir 332 manneskjur og um leið og við bentum eiganda hússins á það þá var brugðist skjótt við. Það skilja allir hættuna sem um er að ræða og þetta er eingöngu gert með velferð fólks í huga,“ sagði Pétur ennfremur og bætti við að eldvarnaeftirlitið muni skoða önnur íþróttahús á Suðurlandi í framhaldinu.

Búa til neyðarútganga út á þak
Pétur segir alla boðna og búna að leysa málið í sátt og samlyndi og undir það tekur Bragi Bjarnason, menningar- og frístundafulltrúi Árborgar, en sveitarfélagið er eigandi hússins.

„Við erum að vinna að því að búa til neyðarútganga á vesturvegg hússins, saga göt í veggi út á þak á Vallaskóla. Við verðum búin að bæta við einum útgangi fyrir leikinn á morgun og höldum svo áfram með tvo í viðbót. Auk þess þarf handknattleiksdeildin að fara í ákveðnar aðgerðir varðandi gæslu í húsinu. Við vinnum þetta með það markmið að leyfa sama fjölda áfram í húsinu og það er góður vilji hjá öllum að leysa þetta mál, þannig að það verða leyfðir 740 áhorfendur í húsinu á morgun,“ segir Bragi og bætir við að kostnaðurinn við þessar breytingar sé ekki mikill fyrir sveitarfélagið, enda séu stærri hagsmunir í húfi.

Selfoss fær 370 miða á oddaleikinn
Þórir Haraldsson, formaður handknattleiksdeildarinnar, segir að fundirnir með brunavörnum og sveitarfélaginu hafi verið góðir og deildin muni verða með öfluga gæslu á leiknum. Eldvarnaeftirlitsmaður verður á leiknum á morgun til þess að liðsinna gæslumönnum og einnig verður sjúkrabíll á staðnum. Hins vegar verði færri Selfyssingar í húsinu en á síðustu leikjum.

„Reglan er sú í oddaleik að liðin skipta aðgöngumiðunum jafnt á milli sín. Þannig að við erum með 370 miða og hefjum forsölu á þeim í dag kl. 18. Það er frítt á leikinn fyrir 16 ára og yngri en allir þurfa að vera með miða til þess að komast inn og ársmiðahafar þurfa sömuleiðis að kaupa miða fyrir leiki í úrslitakeppninni. Það fer enginn inn á leikinn án miða,“ segir Þórir.

Selfyssingar ætla að bjóða þeim sem ekki fá miða á leikinn að upplifa stemmninguna í Vallaskóla en þar verður Fanzone í austurrými skólans. Ljóst er að áhuginn á leiknum er gríðarlegur en þeir sem ekki fá miða geta horft á leikinn á stóru tjaldi með hljóðkerfi og verið nálægt stemmningunni.

Leikurinn verður einnig í beinni útsendingu í Bíóhúsinu Selfossi og þangað mun Stöð2Sport mæta til þess að fanga stemmninguna.


Frá síðasta leik Selfoss og FH í Vallaskóla. Ljósmynd/Jóhannes Eiríksson

Fyrri greinSigurður Andrés: Að byggja upp bæ
Næsta greinTvö framboð í Ásahreppi