„Sigur fyrir íbúalýðræðið“

Hópur sem stóð að undirskriftasöfnun um íbúakosningu vegna miðbæjarskipulagsins á Selfossi náði að safna rúmlega 1900 undirskriftum og því þarf að halda kosningu um skipulagið innan árs.

„Þetta er sigur fyrir íbúalýðræðið og við erum mjög ánægð með þessa niðurstöðu enda var hörkuvinna að koma þessu saman. Fólk hefur mismunandi skoðanir á þessu skipulagi og auðvitað eru einhverjir undir þessum hatti sem eru hlynntir skipulaginu en vilja samt kosningu. Enda snýst þetta bara um það, að koma þessu í íbúakosningu, þetta er mikilvægt svæði í sveitarfélaginu okkar og hjartað í Selfossbæ,“ sagði Aldís Sigfúsdóttir í samtali við sunnlenska.is. Aldís stóð að undirskriftarsöfnuninni ásamt Davíð Kristjánssyni og Gísla Ragnari Kristjánssyni.

Alls þurftu 29% atkvæðisbærra íbúa að skrifa undir undirskriftarlistana tvo, eða 1.909 einstaklingar. Bæði var um að ræða athugasemdir við breytingar á aðalskipulagi og deiliskipulagi miðbæjarins, þar sem Sigtún þróunarfélag áætlar að reisa byggingar í gömlum stíl.

1.928 skrifuðu undir listann um breytingu aðalskipulags í miðbænum, eða 29,4% og 1.941 undir listann um breytingu deiliskipulags í miðbænum, eða 29,7%

Þjóðskrá Íslands fór yfir undirskriftarlistana og hefur Aldís sent niðurstöðuna til bæjaryfirvalda.

„Það er bæjarstjórnar að ákveða hvað gerist næst en samkvæmt lögunum ber þeim að halda íbúakosningu innan eins árs,“ segir Aldís.

Fyrri greinViðbygging við Kirkjuhvol vígð
Næsta greinÁtta sækja um embætti sýslumanns