Hrunamannahreppur fékk Landgræðsluverðlaunin

Í dag voru Landgræðsluverðlaunin 2018 afhent á ársfundi Landgræðslunnar á Grand Hótel í Reykjavík. Hrunamannahreppur var meðal verðlaunahafa að þessu sinni fyrir frumkvöðlastarf við nýtingu seyru til landgræðslu.

Aðrir verðlaunahafar voru Sigrún Snorradóttir og Guðmundur Eiríksson, Starmýri I í Álftafirði og Ólafur Arnalds doktor í jarðvegsfræðum og prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Árið 2012 hófu Landgræðslan og Hrunamannahreppur samstarf um þróunarverkefni um hvernig nýta mætti seyru til landgræðslu. Verkefnið með Hrunamönnum var í fyrstu skipulagt til þriggja ára og fólst í því að sveitarfélagið safnaði seyru úr rotþróm og dreifði henni á illa farið land á afrétti þeirra. Við gróðurmælingar þremur árum eftir að verkefnið hófst kom í ljós að gróðurþekjan hafði aukist úr 15 í 65% sem verður að teljast mjög góður árangur eftir einskiptis landgræðsluaðgerð.
Verkefnið öðlaðist svo framhaldslíf því Hrunamannahreppur hóf samstarf við Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshrepp, Flóahrepp og Skeiða- og Gnúpverjahrepp um nýtingu seyru til uppgræðslu og hafa þau byggt upp sameiginlega aðstöðu fyrir verkefnið. Nú hefur Ásahreppur bæst inn í þetta samstarf, þannig að nú eru sveitarfélögin samtals sex í þessu verkefni – næstum 10% allra sveitarfélaga á Íslandi.

Þetta var í 28. sinn sem Landgræðsla ríkisins veitir þessi verðlaun. Landgræðsluverðlaunin eru veitt árlega einstaklingum og félagasamtökum sem hafa unnið að landgræðslu og landbótum. Með veitingu landgræðsluverðlaunanna vill Landgræðslan vekja athygli á mikilvægu starfi margra áhugamanna að landgræðslumálum.

Verðlaunagripirnir, Fjöregg Landgræðslunnar, eru unnir af Eik-listiðju, Miðhúsum á Fljótsdalshéraði.

Fyrri greinÖlfus í úrslit Útsvarsins
Næsta greinSebastian í heiðurshöll handboltans á Selfossi