Sandvíkurtjaldurinn lentur

Leturstærð: Decrease font Enlarge font
image Sandvíkurtjaldurinn kannar jarðveginn við Strokkhól í gærkvöldi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Góðir Sunnlendingar. Vorið er komið! Tjaldaparið margfræga sem haldið hefur sig í Stóru-Sandvík í Sandvíkurhreppi síðustu ár lenti í Sandvík í gærmorgun.

Þá er það staðfest að veturinn er úti hér sunnanlands.

Nokkrir tjaldar hafa sést í Sandvík á liðnum dögum, enda túnin í Stóru-Sandvík kjörinn millilendingarstaður áður en haldið er ofar í sýsluna. Eins er nokkuð síðan hópar af tjöldum voru komnir á bakka Ölfusár við Selfoss, í fjöruna við Stokkseyri og í Þorlákshöfn.

Það var hins vegar ekki fyrr en í gærmorgun að sjálfur Sandvíkurtjaldurinn heilsaði upp á mannskapinn. Hann er nokkuð seinna á ferðinni heldur en undanfarin ár. Komudagur hans hefur verið skrásettur í rúman áratug en hann hefur yfirleitt lent í kringum 5. apríl. 

Annars hefur verið heldur rólegt yfir fuglalífinu í Sandvík að undanförnu, miðað við fyrri ár. Gæsapör hafa vappað um kornakra en það var ekki fyrr en í gær að hettumávurinn lét sjá sig og þrastasöngur heyrðist sömuleiðis fyrst í þessari viku.

Hins vegar hefur svartþrastafjölskylda haft vetursetu í Sandvík og glatt íbúa Sandvíkurtorfunnar.

Nú má búast við að farfuglum muni fjölga hratt á Suðurlandi á næstu dögum en veðurspáin gerir ráð fyrir meðvindi frá Bretlandseyjum næstu daga, eftir viðvarandi norðanátt að undanförnu.

  • email Senda frétt
  • print Prentvæn útgáfa
  • Plain text Einfaldur texti