Lóan er komin

Vorboðinn ljúfi er mættur í Flóann.

Fyrsta heiðlóa árs­ins sást nú í morg­un í Flóanum, nánar tiltekið við Tjarna­byggð milli Sel­foss og Eyr­ar­bakka.

Í fréttatilkynningu frá Fuglavernd kemur fram að lóan sé mætt á tilsettum tíma nú rétt fyrir páska. Þar kemur einnig fram að aðeins tvisvar sinnum hafa lóurnar komið seinna en í dag, 1999 og 2001, en meðalkomudagur þeirra 1998-2017 hefur verið 23. mars.

Lóan er einkennisfugl íslenskra móa og útbreiddur varpfugl um land allt og einnig á hálendinu. Lóan er vaðfugl sem verpur einkum á þurrum stöðum, mólendi og grónum hraunum. Hreiðrið er opin laut milli þúfna eða á berangri, klætt með stráum.

Um helmingur af heimsstofni lóunnar verpur hér á landi, eða um 300.000 pör, svo ábyrgð okkar gagnvart þessum vorboða er mikil og nauðsynlegt að vernda búsvæði hennar.

Vetrarheimkynnin eru í Vestur Evrópu, aðallega á Írlandi en einnig í Frakklandi, Portúgal og á Spáni.

Heimasíða Fuglaverndar.

Fyrri greinLokun við Fjaðrárgljúfur framlengd um níu vikur
Næsta greinKosið aftur á milli Eiríks og Kristjáns