„Þessi samningur skiptir sveitarfélagið gríðarlega miklu máli“

Í dag undirrituðu Selfossveitur bs. og Búnaðarsamband Suðurlands leigusamning um aukin jarðhitaréttindi í landi Stóra Ármóts í Flóahreppi.

„Við erum að hugsa til framtíðar með þessu. Þessi samningur skiptir sveitarfélagið gríðarlega miklu máli. Fólk áttar sig kannski ekki á því í dag hvað svona samningur þýðir en núna er áratuga ferli framundan. Við höfum verið að rannsaka svæðið með samningi við búnaðarsambandið en þessi nýi samningur opnar á helmingi stærra land upp með Ölfusá og Hvítá og við teljum að það sé hiti og vatn á þessu svæði,” sagði Gunnar Egilsson, formaður framkvæmda- og veitustjórnar Árborgar, í samtali við sunnlenska.is eftir undirritunina.

„Bærinn stækkar svo skarpt og við þurfum alltaf að vera á undan með heita vatnið. Við höfum mjög lítið varaafl núna, það sleppur, en við þurfum meira varaafl,“ bætti Gunnar við og hrósaði samstarfinu við búnaðarsambandið.

„Samstarfið við Búnaðarsamband Suðurlands hefur verið mjög gott. Þeir hugsa þetta sem samfélagsverkefni og þetta skiptir þá líka máli í rekstrinum, þannig að báðir aðilar hafa hag af þessu.“

Borað í Ósabotnum frá 2002
Í september árið 2000 gerðu Búnaðarsamband Suðurlands og Selfossveitur með sér samning um einkarétt Selfossveitna til jarðhitarannsókna, borunar eftir jarðhita og til virkjunar og hagnýtingar í hluta af landi Stóra-Ármóts. Á grundvelli þessa samnings hafa Selfossveitur starfrækt orkuvinnslu í Lambhaga við Ósabotna frá ársbyrjun 2002. Þar eru þrjár vinnsluholur ÓS-1, ÓS-2 og ÓS-3. Gert er ráð fyrir nokkurri aukningu á vinnslu við Ósabotna á næstu misserum en vinnslan þar nálgast það hámark sem horft er á til langs tíma.

Rannsóknarboranir hefjast í sumar
Með samningnum sem undirritaður var í dag var samið um stækkun þess landsvæðis sem áður var samið um og nær leigusamningurinn yfir jörðina í heild sinni að frádregnu landi undir sérstök afnot landeiganda. Í kjölfar samningsins er gert ráð fyrir að hefja rannsóknarboranir upp með Ölfusá og Hvítá í sumar.

Ráðgjafar Selfossveitna á sviði jarðhitarannsókna, ÍSOR, telja álitlegt að skoða frekari jarðhitaleit og hitastigulsboranir upp með Ölfusá og Hvítá. Undanfarnar vikur hefur staðið yfir rannsóknarborun við Ósabotna með það að markmiði að staðsetja þar fjórðu vinnsluholuna ÓS-4 sem áætlað er að bora síðar á þessu ári.

Það voru Gunnar Egilsson, formaður framkvæmda- og veitustjórnar Árborgar, Jón Tryggvi Guðmundsson, framkvæmda- og veitustjóri, Sveinn Sigurmundsson, framkvæmdastjóri BSSL og Gunnar Kr. Eiríksson, formaður stjórnar BSSL, sem undirrituðu samninginn og Helgi Eggertsson, meðstjórnandi í stjórn BSSL og Sigurður Sigurjónsson, bæjarlögmaður vottuðu hann.

Fyrri greinSvæði á Skógaheiði lokað vegna aurbleytu og átroðnings
Næsta greinHamar sópaði Snæfelli úr veginum