Sölvi og Guðjón framlengja

Sölvi Ólafsson og Guðjón Baldur Ómarsson hafa framlengt samninga sína við handknattleiksdeild Selfoss. Sölvi framlengir um tvö ár en Guðjón Baldur um þrjú ár.

Í tilkynningu frá stjórn deildarinnar segir að þetta séu mikil gleðitíðindi fyrir deildina en strákarnir hafa báðir verið mikilvægur hluti liðsins í Olísdeildinni í vetur. Sölvi hefur staðið vaktina í markinu en Guðjón Baldur spilar í hægra horninu og hefur fengið tækifæri til að láta ljós sitt skína í vetur þrátt fyrir ungan aldur.

Þeir verða báðir í eldlínunni í kvöld þegar Selfoss fær Víkinga í heimsókn kl. 20:30 í lokaumferð deildarinnar. Þá mun ráðast hvaða lið tryggir sér deildarmeistaratitilinn en ÍBV, Selfoss og FH hafa öll 32 stig fyrir lokaumferðina.

Fyrri greinÖruggur sigur í lokaumferðinni
Næsta greinGóð gjöf frá kvenfélagskonum í Hveragerði