Hugrún Tinna sigraði í Stóru upplestrarkeppninni

Lokakeppni Stóru upplestrarkeppninnar 2018 í Árnessýslu var haldin í Versölum í Þorlákshöfn þriðjudaginn 13. mars síðastliðinn.

Sigurvegari í ár var Hugrún Tinna Róbertsdóttir úr Sunnulækjarskóla á Selfossi, í öðru sæti var Hildur Maja Guðmundsdóttir, einnig úr Sunnulækjarskóla, og í þriðja sæti var Ingunn Guðnadóttir, Grunnskólanum í Þorlákshöfn.

Í fyrstu umferð lásu keppendur úr skáldsögu Sigrúnar Eldjárn, Strokubörn á Skuggaskeri. Í annarri umferð lásu þau valin ljóð eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson. Í þriðju og síðustu umferðinni lásu nemendur svo ljóð að eigin vali.

Þrír keppendur frá hverjum skóla
Lokahátíðin er samstarfsverkefni grunnskólanna, Radda, skólaþjónustu Árborgar og Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings. Á lokahátíðinni kepptu þrír keppendur frá hverjum skóla, sem höfðu verið valdir í forkeppni í sínum skóla.

Skólarnir sem áttu fulltrúa á hátíðinni voru Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri, Grunnskólinn í Þorlákshöfn, Grunnskólinn í Hveragerði, Sunnulækjarskóli á Selfossi og Vallaskóli á Selfossi.

Lestur er hættulegur
Elísa Jóhannsdóttir sem nýverið fékk íslensku barnabókaverðlaunin fyrir bók sína, Er ekki allt í lagi með þig, flutti ávarp til keppenda. Yfirskrift ávarpsins var „Lestur er hættulegur“ og fjallaði um hversu mikilvægt er að vega og meta allt sem maður les. Milli atriða voru tónlistaratriði á vegum Tónlistarskóla Árnesinga og gaf það samkomunni hátíðlegan blæ. Verðlaunahafar frá í því í fyrra kynntu skáld keppninnar í ár.

Dómnefndina skipuðu þau Björk Einisdóttir, varaformaður Radda sem var formaður dómnefndar, Ásmundur Sverrir Pálsson, íslenskufræðingur, og Íris Blandon, leikari.


Milli atriða voru tónlistaratriði á vegum Tónlistarskóla Árnesinga og gaf það samkomunni hátíðlegan blæ. Ljósmynd/Aðsend

Fyrri greinSpennandi að taka þátt í uppbyggingunni á Selfossi
Næsta greinBarnaheill hljóta styrk frá FF og Hagkaup