Spennandi að taka þátt í uppbyggingunni á Selfossi

Krambúðin opnaði verslun að Tryggvagötu 40 á Selfossi í morgun en um er að ræða stærstu Krambúðarverslun á landinu.

Krambúðin er til húsa þar sem verslunin Samkaup Úrval var áður, en heimamenn munu eflaust kalla verslunina Hornið áfram, eins og undanfarna áratugi.

„Við erum spennt fyrir að opna á Krambúðina á Selfossi. Það er sannarlega spennandi að fá að taka þátt í þeirri miklu uppbyggingu sem er að eiga sér stað í bænum. Okkur finnst Krambúðin smellpassa inn í flóruna í bænum og við sjáum fyrir okkur að með tilkomu verslunarinnar náum við að mæta vaxandi kröfum í stækkandi samfélagi,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa.

Gunnar Egill segir styrkleika Krambúðarinnar m.a. felast í að hún sé svokölluð þægindaverslun með langan opnunartíma en á sama tíma með allar helstu heimilisvörur á hagstæðu verði og bendir á að nauðsynjavörur séu á lægra verði en áður hefur sést í sambærilegum verslunum á Íslandi.

„Við leggjum mikið upp úr að viðskiptavinir á hraðferð geti gengið að tilboðum vísum og geti gripið með sér bita, svo sem bakkelsi sem bakað er á staðnum og take-away-kaffi. Við finnum að eftirspurnin eftir slíkri þjónustu fer sífellt vaxandi og við höfum verið að mæta þeirri kröfu með því að stækka og endurnýja verslanirnar sem fyrir voru, en sömuleiðis fjölga þeim.“

Þetta er sjötta Krambúðarverslunin sem opnuð er á landinu en hinar eru í Reykjavík, á Akureyri, Húsavík og í Reykjanesbæ. Auk þess er stefnt að opnun Krambúðar í verslunarmiðstöðinni Firði í Hafnarfirði innan skamms.

Í tilefni opnunarinnar á Selfossi verður boðið uppá tertu og kaffi, auk þess sem börnin fá ís. Einnig verður fjöldi tilboða í versluninni dagana 16. – 21. mars.

Fyrri greinVerðlaunalýsing í Raufarhólshelli og Lava eldfjallamiðstöðinni
Næsta greinHugrún Tinna sigraði í Stóru upplestrarkeppninni