Ferðamenn á meiri ferðinni austan við Vík

Lögreglan á Suðurlandi stöðvaði þrjá ökumenn í liðinni viku, grunaða um að aka bifreiðum sínum undir áhrifum fíkniefna.

Einn þeirra hafði áður verið sviptur ökurétti vegna sambærilegra brota. Aksturslag hinna tveggja gaf tilefni til þess að skoða ástand þeirra sérstaklega.

Í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi kemur fram að einn ökumaður til viðbótar hafi verið stöðvaður grunaður um ölvun við akstur.

Tveir ökumenn aðrir voru kærðir fyrir að aka sviptir ökurétti og tuttugu voru kærðir fyrir að aka of hratt. Flestir þeirra voru á Suðurlandsvegi i Eldhrauni og á fleiri stöðum milli Víkur og Lómagnúps. Af þeim eru sextán erlendir einstaklingar en fjóri íslenskir.

Skráningarnúmer voru tekin af þremur ökutækjum sem ekki höfðu lögboðnar tryggingar í gildi.

Fyrri greinMargrét útnefnd Íþróttamaður Hamars 2017
Næsta greinMissti framan af fingri í trissuhjóli