„Bragðgóð lítil listaverk“

„Þetta byrjaði allt á að ég fór að gera afmæliskökur fyrir dæturnar þegar þær voru litlar og svo fyrir alvöru þegar dönsk vinkona bað mig um að gera köku fyrir afmæli hjá sínum börnum og gæsaköku.“

Þetta segir Katrín Pálsdóttir en kökurnar hennar, Kötu Kökur – Kate’s Cakes Iceland, hafa vakið mikla athygli.

Katrín gerir kökur af öllum stærðum og gerðum. „Ég myndi lýsa kökunum sem bragðgóðum, litlum listaverkum. Það er einstaklega gaman að fá frjálsar hendur en einnig oft krefjandi áskorun að fara eftir myndum sem ég fæ sendar. Ég nota þær þá oftast sem innblástur og set minn svip á þær,“ segir Katrín í samtali við sunnlenska.is.

Katrín segir að danska vinkona hennar hafi auglýst kökurnar mikið. „Hún varð óformlegur auglýsingastjóri fyrir mig frá sirka 2013 þegar við bjuggum í Danmörku. Ég átti mér orðið nokkra fastakúnna í Kaupmannahöfn áður en við fluttum heim árið 2016,“ segir Katrín, en hún býr með manni sínum, Óskari Björnssyni, og tveimur dætrum á Selfossi.

„Baksturinn tekur lengsta tímann, þar sem ég er að sjálfsögðu bara með einn venjulegan heimilisofn. Skreytingarnar taka orðið ekkert svo langan tíma. Það er mjög misjafnt eftir köku að sjálfsögðu. Allt frá tveimur tímum og upp í tólf tíma samtals með bakstri og undirbúningi fyrir skraut. Ég til dæmis geri allar fígúrur sjálf,“ segir Katrín en þess má geta að hún er algjörlega sjálfmenntuð í þessum geira og hefur aldrei farið á nein skreytingar- eða kökunámskeið.

Alltaf þótt gaman að skapa
Aðspurð segir Katrín að henni hafi alltaf þótt gaman að baka. „Mér hefur alltaf þótt gaman að búa til eitthvað sjálf, skapa eitthvað út frá hugmynd. Ég komst fljótlega upp á lagið, með kennslu frá ömmu minni, að fara ekki endilega alltaf bókstaflega eftir uppskrift. Hún notaði sjaldan mæliskeiðar eða vigt og það er mjög gaman að baka á þann hátt, blanda einhverju saman og þróa eitthvað nýtt.“

„Gæsakökurnar eru alltaf skemmtilegar og í eitt skipti fékk ég beiðni um tvær eins kökur, fyrir bæði gæsina og stegginn (greyið steggurinn). Einnig gerði ég eina fermingarköku þegar ég bjó í Kaupmannahöfn í anda Steampunk og var það mjög spennandi. Minnistæðust er þó kannski stærsta kakan sem ég hef gert, brúðarterta fyrir mjög góða vini. Sú tók tólf tíma samtals og var fyrir ríflega 200 manns.“

Þegar Katrín er spurð út í framtíðarmarkmið segist hún vilja halda áfram á kökubrautinni. „Ég sé alveg lítið sætt kökuhús fyrir mér. Þá kannski meira í áttina að kaffihúsi heldur en bakaríi,“ segir Katrín að lokum.

Facebook-síða Kötu Kökur – Kate’s Cakes Iceland.

Instagramsíða-síða Kötu kökur – Kate’s Cakes Iceland.

Fyrri greinÓvissustigi lýst yfir á Hellisheiði
Næsta greinGlæsilegur árangur hjá Ólafíu Ósk