110 nautgripir á Eystri-Grund aflífaðir

Í lok síðustu viku voru 110 nautgripir færðir af bænum Eystri-Grund við Stokkseyri til aflífunar og förgunar að fyrirskipun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Nautgripirnir á bænum höfðu haft aðgang að óvörðum og götuðum sekkjum af kjötmjöli sem ætlað var að nota sem áburð. Notkun kjötmjöls sem fóður eða til fóðurgerðar fyrir dýr sem alin eru til manneldis er bönnuð til að hindra að heilahrörnunarsjúkdómar berist í menn og dýr.

Nautgripirnir hafa nú verið aflífaðir í sláturhúsi, sýni tekin og áhættuvefir sendir í brennslu. Afurðir dýranna verða ekki nýttar til manneldis og verður fargað.

Matvælastofnun lagði bann á markaðssetningu afurða og slátrun til manneldis og flutning gripa frá bænum í mars á síðasta ári og óskaði í kjölfarið eftir fyrirskipun ráðuneytisins um niðurskurð allra gripa sem höfðu haft aðgang að kjötmjölinu á býlinu.

Niðurstaða atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um niðurskurð lá endanlega fyrir í lok júní eftir að kröfu eiganda gripanna um frestun réttaráhrifa hafði verið hafnað af hálfu ráðuneytisins.

Í framhaldi niðurskurðar mun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið ákvarða bætur til umráðamanns gripanna.

Í tilkynningu frá Matvælastofnun er öllum sem tóku þátt í aðgerðunum þakkað fyrir veitta aðstoð.

Fyrri greinMikilvæg viðbót við þjónustuna í Grímsnesinu
Næsta greinSelfoss valtaði yfir ÍR