Mikilvæg viðbót við þjónustuna í Grímsnesinu

Tuttugasta og sjöunda hlaða Orku náttúrunnar fyrir rafbílaeigendur er komin í gagnið. Gunnar Þorgeirsson oddviti Grímsnes- og Grafningshrepps hlóð fyrsta rafbílinn í nýrri hlöðu við Minni-Borg í dag.

Gunnar fagnar framtaki ON og þeirri áherslu fyrirtækisins að setja hlöður upp í dreifbýlinu. „Þetta er öryggisatriði auk þess að vera mikilvæg viðbót við þá þjónustu sem veitt er hér í okkar samfélagi, bæði fyrir íbúa og gesti,“ segir oddvitinn. Í Grímsnes- og Grafningshreppi eru einhverjar mestu sumarhúsabyggðir í landinu.

Hlaðan við Minni-Borg er önnur hlaðan sem tekin er í notkun á þessu ári því í janúarlok var hlaða sett upp á Stöðvarfirði. Sú síðarnefnda er þáttur í því verkefni ON að opna hringveginn fyrir rafbílaeigendum. Hlaðan á Minni-Borg er hinsvegar sú fyrsta sem ON setur upp í uppsveitum Suðurlands. Hlöðunum á eftir að fjölga talsvert á þessu ári og hringnum verður lokað fyrir páska.

Fyrri greinÓvenju fáir staðnir að hraðakstri
Næsta grein110 nautgripir á Eystri-Grund aflífaðir