Styrktu björgunarsveitirnar um samtals tvær milljónir króna

Í dag afhentu Friðrik Pálsson, eigandi Hótel Rangár og Bragi Hansson, formaður starfsmannafélags Hótel Rangár, peningagjafir til Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu og Björgunarsveitarinnar Dagrenningar á Hvolsvelli.

„Við ákváðum það á Hótel Rangá fyrir tveimur árum að þiggja ekki þjórfé. Við segjum gestunum hins vegar að við vitum að mörgum þyki ánægjulegt að leggja fram einhverja fjármuni sem virðingarvott fyrir góða þjónustu. Við bjóðum þeim að leggja fram peninga sem renna til björgunarsveita á svæðinu. Þetta hefur vakið afskaplega jákvæð viðbrögð meðal gesta okkar,“ segir Friðrik Pálsson, hótelstjóri.

Hvort félag fékk eina milljón króna en þetta er í annað skiptið sem hótelið og starfsmannafélagið gefa úr sínum sjóði til sveitanna. Samtals hafa Hótel Rangá og starfsmannafélag Hótel Rangá því gefið samtals 2,4 milljónir króna í beina peningagjöf til beggja björgunarsveitanna.

Á myndinni með fréttinni eru (f.v.) Björn Á. Guðlaugsson, Björgunarsveitin Dagrenning, Elva Björk Árnadóttir, Flugbjörgunarsveitin Hellu, Erla Sigríður Sigurðardóttir, Flugbjörgunarsveitin Hellu, Harpa Sif Þorsteinsdóttir, gjaldkeri Björgunarsveitarinnar Dagrenningar, Karl Rúnar Ólafsson, Flugbjörgunarsveitin Hellu, Bragi Hansson, formaður starfsmannafélags Hótel Rangá, Margrét Ýrr Sigurgeirsdóttir formaður Flugbjörgunarsveitarinnar Hellu og Friðrik Pálsson, eigandi Hótel Rangár.

Fyrri greinToni orðinn leikmaður Selfoss
Næsta greinVegagerðin segir lokanir fjallvega hafa sannað sig