Vel á annað hundrað ökumanna í vanda á Sandskeiði

Björgunarsveitir af höfuðborgarsvæðinu, Selfossi, Þorlákshöfn, Hveragerði og Eyrabakka hafa haft í nógu að snúast á Suðurlandsvegi við Sandskeið í kvöld.

Ökumenn vel á annað hundrað bíla hafa verið í vanda eftir að veður tók að versna á svæðinu á áttunda tímanum.

Rúmlega hundrað björgunarsveitamenn hafa tekið þátt í verkefnum á svæðinu og voru langflestir enn að störfum, um klukkan ellefu í kvöld.

Stór flutningabíll lenti í vanda og þveraði veginn vestan Litlu kaffistofunnar og komust því aðrir bílar ekki framhjá. Á endanum tókst að koma bílunum framhjá og eru hópar björgunarsveitafólks að fylgja bílalestinni áleiðis til Reykjavíkur.

Björgunarsveitir úr Árnessýslu keyrðu á móti sveitum frá Reykjavík, um Þrengslin og yfir Hellisheiði og leituðu af sér allan grun um að fleiri bílar væru í vanda á þeim slóðum.

Einhverjir bílar hafa verið skildir eftir og eru vegirnir enn lokaðir og verða áfram þangað til annað verður ákveðið af Vegagerðinni, björgunarsveitarfólk mannar þær lokanir.

Slysavarnafélagið Landsbjörg ítrekar við vegfarendur að fylgjast með upplýsingum um færð og fara að fyrirmælum viðbragðsaðila, þar sem veðurspá er enn slæm fyrir nóttina.

Fyrri greinStefna á Íslandsmet í gerð armbanda
Næsta greinAnna Greta ráðin á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða