Búist við veglokunum í kvöld

Vegagerðin segir að búast megi við lokunum á Hellisheiði, Þrengslum, Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði um klukkan 20 í kvöld og eitthvað fram eftir nóttu.

Veðurstofan hefur varað við stormi sem skellur á sunnan- og vestanlands um kl. 20-21 í kvöld en gul viðvörun er í gildi fyrir svæðið. Búast má við stórhríð á fjallvegum, 20-23 m/s og nánast engu skyggni.

Lætin hefjast með snjókomu og síðar slyddu og rigningu og eru samgöngutruflanir líklegar víða um land.

Á láglendi snjóar til að byrja með, en hlánar fyrir miðnætti með vatnselg í þéttbýli í nótt og fyrramálið. Vatnselgur gæti valdið skaða ef ekki er hreinsað frá niðurföllum og fólki er bent á að festa lausa muni sem gætu fokið.

Fyrri greinKvöldstund á Kyndilmessu
Næsta greinÍbúafundi í Bláskógabyggð frestað