Leitað að Ríkharði á Selfossi

Björgunarsveitir hófu leit að Ríkharði Péturssyni innanbæjar á Selfossi í gærkvöldi. Leit verður haldið áfram í dag.

Lögreglan á Suðurlandi lýsti eftir Ríkharði í gær en hann hefur ekki sést síðan hann fór frá heimili sínu að Eyravegi 46 síðdegis á þriðjudag.

Björgunarsveitir úr Árborg, Hveragerði og Þorlákshöfn leituðu innanbæjar í gærkvöldi en meðal annars voru notaðir sporhundur, víðavangsleitarhundar og drónar við leitina.

„Í dag erum við erum að leita með gönguhópum og leitarhundi á Selfossi og við Ölfusá. Leitarsvæðið við ána nær frá Selfosskirkju niður að Geitanesi. Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur flogið yfir ána í morgun. Það er gríðarlega erfitt að leita á ánni vegna klaka og ekki hægt að koma út bátum. Veðurspáin er ekki góð þannig að við viljum hvetja fólk til þess að skoða nærumhverfi sitt,“ sagði Gunnar Ingi Widnes Friðriksson, stjórnandi leitarinnar, í samtali við sunnlenska.is. Um þrjátíu manns hafa verið kallaðir út til leitar en aðstæður eru ekki góðar, lágskýjað, snjókoma og austanátt og veðrið fer versnandi.

Ríkharður er grannvaxinn og meðalmaður á hæð. Þegar hann fór að heiman var hann klæddur í svartar buxur, svarta úlpu og svarta húfu með gulri áletrun.

Þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir Ríkharðs eftir kl. 16:00 sl. þriðjudag eru beðnir að hafa samband við lögregluna á Suðurlandi í síma 4442000, 112 eða á einkaskilaboðum á Facebook.


Ríkharður Pétursson.

Fyrri greinFramúrskarandi sunnlenskum fyrirtækjum fjölgar
Næsta greinNáðu ekki að ljúka viðræðum fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar