Ný hlaða í Hveragerði

Orka náttúrunnar tók í dag í notkun nýja hlöðu fyrir rafbílaeigendur við þjónustustöð Skeljungs í Hveragerði. Hún er búin hvort tveggja hraðhleðslu og hefðbundinni.

Hlöður ON eru nú orðnar 25 talsins, í öllum landsfjórðungum og hringvegurinn verður orðinn vel fær rafmagnsbílum fyrir páska 2018. Í gær voru til að mynda opnaðar stöðvar í Freysnesi í Öræfum og á Egilsstöðum.

Ellefta hlaðan á árinu
Í tilkynningu frá Orku náttúrunnar segir að fyrirtækið hafi verið leiðandi í uppbyggingu innviða fyrir orkuskipti í samgöngum frá árinu 2014. Þá voru fyrstu hlöður fyrirtækisins með hraðhleðslum opnaðar. Þeim hefur fjölgað síðan og aldrei eins ört og nú í ár.

Ellefta hlaðan á þessu ári var tekin í notkun í Hveragerði í dag, við þjónustustöð Skeljungs við Austurmörk. Þar fyllti Stella Hrönn Jóhannsdóttir, rafbílaeigandi, bílinn sinn að viðstöddum feðgunum Vilhjálmi og Vilhjálmi Roe, sem reka Skeljungsstöðina í Hveragerði, auk Áslaugar Thelmu Einarsdóttur, forstöðumanns einstaklingsmarkaða ON og sonar hennar Einars Birgis Einarssonar.


Jón Sigurðsson verkefnisstjóri hjá ON og Ragna Kristín Jónsdóttir afgreiðslukona í Freysnesi við hlöðuna sem opnuð var þar í gær. Ljósmynd/ON

Fyrri greinGöngumaður í vanda austan Hofsjökuls
Næsta greinÍsólfur Gylfi lætur af störfum