Færri einingar töpuðust

Heldur betri árangur náðist á nýliðinni haustönn í Fjölbrautaskóla Suðurlands, heldur en á síðustu haustönnum, ef litið er til fjölda námseininga sem „skiluðu sér í hús“ í annarlok.

Einingar sem lagðar voru undir við upphaf annar voru 22.474 og undir lokin höfðu 18.179 einingar skilað sér í hús. Tapaðar einingar voru því 4.295 frá upphafi annar eða 19,11%.

Þetta kom fram í annarannál Þórarins Ingólfssonar, aðstoðarskólameistara, við brautskráningarathöfnina í síðustu viku.

„Ekki er eingöngu um að ræða að nemendur hafi fallið í áföngum heldur getur eins verið að þeir hafi sagt sig frá einstökum áföngum eða hætt í skólanum,“ segir Þórarinn.

Samanburður við fyrri annir sýnir að staðan er heldur betri en undangengnar annir. Haustið 2016 tapaðist tæplega 21% eininga og haustið 2015 töpuðust rúmlega 22% eininga.

Að sögn Þórarins er stöðugt unnið að því að reyna að bæta þetta hlutfall.

Alls var 771 nemandi skráður til leiks í dagskóla við upphaf annar. Að auki voru 23 nemendur í 10. bekk grunnskóla í fjarnámi.

Fyrri greinSlasaðist á Ingólfsfjalli
Næsta greinStefán fjórðungsmeistari í glímu eftir fimm ára hlé