„Svarar vandræðalegum spurningum“

„Bókin er hispurslaust og opinskátt fræðirit um getnað, meðgöngu, fæðingu og sængurlegu,“ segir Andrea Sóleyjar- og Björgvinsdóttir, höfundur bókarinnar Kviknar.

Hugmyndin að bókinni kviknaði fyrir tólf árum þegar Andrea gekk með sitt fyrsta barn en Andreu fannst vanta íslenskt efni um fæðingu og annað tengt því. Eftir tólf ára meðgöngu fékk Andrea loksins bókina í hendurnar.

„Tilfiningin er ólýsanleg. Þegar eitthvað sem kona hefur lagt allt sitt hjarta í er loks tilbúið fylgir því mikið stolt, ákveðin léttir, en á sama tíma tómleiki. Sem betur fer hef ég verið á kafi í að koma henni í búðir og á framfæri og í rauninni er þetta bara upphafið, útgáfan var fæðingin, nú er allt uppeldið eftir,“ segir Andrea.

Sem fyrr segir er Andrea höfundur bókarinnar, Aldís Pálsdóttir ljósmyndari sá svo um að taka allar myndirnar, Hafdís Rúnarsdóttir ljósmóðir stendur fyrir fræðilegum upplýsingum og Þorleifur Kamban hannaði. „Svo eiga foreldrar á öllum aldri reynslusögur í bókinni, sem gerir hana svo einstaka,“ segir Andrea.

Löngu þarft verk
„Markmiðið með bókinni er að opna umræðu um allt sem brennur á tilvonandi foreldrum, svara venjulegum og „vandræðalegum“ spurningum og hvetja mæður og feður til að treysta á sig og trúa á sig og lesa um reynslu annarra. Að barneignarferlið allt sé æðislegt en á sama tíma ofsalega krefjandi,“ segir Andrea.

Andrea segir að bókin sé fyrir öll kærustupör sem vilja eignast barn eða eiga von á slíku. „Auðvitað er hún tilvalin fyrir ömmur og afa, vinkonur og vini og þá sem vilja gleðja fólk sem hefur áhuga á þessu ferli. Margar ljósmæður og makar þeirra hafa sýnt bókinni mikinn áhuga, þetta er eitt það merkilegasta við lífið, að geta barn, ganga með það og koma því í heiminn. Kviknar er þess vegna löngu þarft verk, sem vantaði í upplýsingaflóruna.“

„Ég vil nota tækifærið og þakka af öllu hjarta þeim sem studdu okkur á sínum tíma hjá Karolinafund. Með stuðningi allra styrkveitenda tókst okkur að safna nægu fé til að geta haldið verkefninu gangandi. Þó það séu tvö ár síðan er dásamlegt að geta loksins afhent bækurnar og við höfum reynt að knúsa öll þau sem við höfum hitt til að gefa þeim sitt eintak. Auðvitað viljum við líka hvetja ykkur sem allra flest til að kaupa bækur í jólagjafir. Framboðið er frábært og vonandi hittir Kviknar í mark hjá þeim sem hana eignast,“ segri Andrea glöð að lokum.

Hægt er að nálgast Kviknar í Sveitabúðinni Sóley og Bókakaffinu á Selfossi.

Fyrri greinMótorhjólamaður á flótta undan lögreglu endaði í skafli
Næsta greinEkki alvarleg slys á fólki