„Sjáum fram á mikla og jákvæða uppbyggingu í Ölfusi“

Sveitarfélagið Ölfus hefur auglýst eftir samstarfi við fasteignasala við markaðssetningu og sölu lóða fyrir atvinnuhúsnæði og athafnasvæði í og við þéttbýli Þorlákshafnar.

Að sögn Gunnsteins R. Ómarssonar, bæjarstjóra er um mikið verkefni að ræða og í ekki stærri stjórnsýslu en sveitarfélagið er með telja bæjaryfirvöld að reynsla og þekking fasteignasala geti hjálpað sveitarfélaginu mikið í verkefninu.

„Í byrjun árs 2017 fórum við af stað með kynningu á sveitarfélaginu og birtum auglýsingar í flestum fjölmiðlum landsins. Auglýsingarnar fengu gríðarlega góðar viðtökur og áhuga fólks á Þorlákshöfn jókst greinilega mikið við þetta. Á vormánuðum 2017 hófust reglubundnar siglingar Mykines á vegum Smyril-Line Cargo á milli Þorlákshafnar og Rotterdam og þetta verkefni jók áhugann á Þorlákshöfn einnig til mikilla muna. Út af þessu og ákveðinni framtíðarsýn höfum við verið að skipuleggja lóðir og svæði í og við Þorlákshöfn fyrir atvinnuuppbyggingu og íbúðabyggð,“ sagði Gunnsteinn í samtali við sunnlenska.is.

Á bjarginu suður og vestur af Þorlákshöfn hefur verið skipulagt stórt svæði fyrir fiskeldi og að sögn Gunnsteins hafa viðtökurnar ekki látið á sér standa.

„Þegar hefur verið byggð upp ein ný fiskeldisstöð og fleiri hafa sýnt áhuga. Vestur af Þorlákshöfn höfum við skipulagt ellefu stórar iðnaðarlóðir og uppbygging er langt komin á þeirri fyrstu. Þarna eru heilmikil tækifæri fyrir marga og áhuginn mikill,“ bætir Gunnsteinn við.

Nú er verið að leggja lokahönd á deiliskipulag á hafnarsvæðinu þar sem fjöldi lóða verður í boði og einnig stendur yfir skipulagsvinna fyrir miðbæjarsvæðið í Þorlákshöfn.

„Þar sem íbúðahúsalóðaframboð er nánast uppurið hjá okkur erum við að skipuleggja nýtt hverfi sem við sjáum fram á að byrja að úthluta úr árið 2019 með möguleika á að flýta því tímaplani. Um er að ræða marga tugi lóða af öllum stærðum og gerðum og við sjáum fram á mikla og jákvæða uppbyggingu í Ölfusi á næstu misserum og árum,“ segir bæjarstjórinn að lokum.

Áhugasamir fasteignasalar hafa frest til 17. desember til að sækja um verkefnið en skilyrði er að í umsókn komi fram hugmyndir um utanumhald og framkvæmd verkefnisins og þóknun.

Fyrri greinFyrsta HSK mótið í lyftingum fatlaðra
Næsta greinByrjaði að skrifa ljóð fimm ára