Árborg fær styrk til ljósleiðaralagningar

Sveitarfélagið Árborg hefur fengið rúmlega 9,9 milljón króna úthlutun úr Fjarskiptasjóði til þess að leggja ljósleiðara í dreifbýli sveitarfélagsins.

Bæjarráð Árborgar mun taka málið fyrir á fundi í næstu viku, en staðfesta þarf í síðasta lagi þann 30. nóvember hvort sveitarfélög þiggi þá styrki sem í boði eru.

„Árborg sótti um styrk til lagningar ljósleiðara á því svæði sem áður var Sandvíkurhreppur. Gert er ráð fyrir að sækja um styrk til lagningar ljósleiðara í dreifbýli við Eyrarbakka og Stokkseyri næst þegar opnað verður fyrir umsóknir hjá Fjarskiptasjóði,“ sagði Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar í samtali við sunnlenska.is.

Að sögn Ástu er áætlaður heildarkostnaður við þennan hluta verksins um 30 milljónir króna.

„Áætlað er að hlutur íbúa verði um 200 þúsund krónur auk virðisaukaskatts á styrkhæfa tengingu. Það er viðmið sem mörg sveitarfélög hafa haft og verði tengt á alla staðina sem eru rúmlega 40 talsins þá leggur sveitarfélagið sjálft til um 10,7 milljónir króna,“ bætir Ásta við.

Að sögn Ástu verður mögulega unnt að hefja verkefnið næsta vor.

Auk Árborgar fengu Grímsnes- og Grafningshreppur, Flóahreppur, Skaftárhreppur og Bláskógabyggð styrki til ljósleiðaralagningar í þessari úthlutun.

Fyrri greinHvergerðingar kaupa 100 fermetra ærslabelg
Næsta greinJólabingó í Grímsnesinu