Eldvarnaátakið opnað í Sunnulækjarskóla

Árlegt eldvarnaátak Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna var formlega opnað í morgun í Sunnulækjarskóla á Selfossi.

Á opnunarhátíðinni flutti Stefán Pétursson, formaður LSS, ávarp, setti átakið formlega og sagði það sérstaklega ánægjulegt að þetta árið hæfist átakið í sínum heimabæ.

Í kjölfarið var fræðsla um eldvarnir fyrir börn í 3. bekk en Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar hafði umsjón með fræðslunni, ásamt Hauki Grönli, varaslökkviliðsstjóra og Guðmundi Þórissyni, eldvarnaeftirlitsmanni. Fræðslan var mjög vel heppnuð og höfðu börnin um margt að spyrja.

Að fræðslu lokinni var rýmingaræfing í skólanum og starfsfólk fékk þjálfun í notkun slökkvitækja. Þá stilltu Brunavarnir Árnessýslu, sjúkraflutningar HSu og lögreglan á Suðurlandi upp bílum til sýnis við skólann.

Eldvarnaátakið er fyrir alla 3. bekkinga landsins og fer fram fyrir jól ár hvert. Nemendurnir fá fræðslu um eldvarnir og gefst kostur á að svara eldvarnagetraun sem dregið verður úr á 112 daginn, þann 11. febrúar.


Söngfuglar úr Sunnulækjarskóla sungu við setningarathöfnina. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Stefán Pétursson, formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Haukur, Guðmundur og Ásta fræða 3. bekk um eldvarnir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrri greinVé­steinn kjör­inn þjálf­ari árs­ins
Næsta greinLyngdalsheiði lokuð