Borun hætt við Laugaland

Veitur hafa nú hætt borun í landi Götu við Laugaland. Var borað niður á 1.855 m dýpi en árangur hefur ekki verið í takt við væntingar og núverandi aðstæður bjóða ekki upp á frekari borun á svæðinu.

Markmið borunarinnar var að afla heits vatns og auka þannig nýtanlegan forða fyrir Rangárveitur er þjóna Rangárþingum og Ásahreppi að hluta. Upphaflega var gert ráð fyrir að borholan yrði 1.800 m djúp en ákveðið var að dýpka holuna í von um að hitta á góðar vatnsæðar. Veitur munu gera mælingar á holunni og taka ákvarðanir um frekari forðaöflun fyrir Rangárveitur í kjölfarið.

Eins og komið hefur fram dróst verktími á langinn en vegna nálægð við aðrar borholur þurfti að beita sérstakri aðferð sem reyndist erfiðari og tafsamari en gert var ráð fyrir og slökkva þurfti á dælingu úr nærliggjandi vinnsluholu vegna nálægðar hennar við nýju borholuna. Við það skertist framboð af heitu vatni á svæðinu og grípa þurfti til aðgerða, t.a.m. lokun sundlauga á Hellu, Hvolsvelli og Laugalandi.

Í tilkynningu frá Veitum segir að þar sem vetur sé skollinn á og notkun á heitu vatni aukist þurfi að gangsetja aftur þá holu sem var í hvíld á meðan á borun stóð. Búast má við að nokkra daga taki að ná jafnvægi í rekstri veitunnar og á meðan verða sundlaugar lokaðar og hitastig vatnsins lægra hjá íbúum á jaðarsvæðum. Í tilkynningunni þakkar starfsfólk Veitna íbúum fyrir þolinmæði og skilning á meðan á verkinu hefur staðið.

Fyrri greinUpplestur úr jólabókum
Næsta greinSamningur gerður við foreldrafélag leikskólanna