Byssur teknar af rjúpnaskyttum

Lögreglan á Suðurlandi fór í tvær eftirlitsferðir um síðustu helgi vegna rjúpnaveiði, en síðasti dagur rjúpnaveiðitímabilsins var á sunnudaginn. Tveir veiðimenn voru kærðir fyrir vopnalagabrot.

Á laugardag var farið í eftirlitsferð um uppsveitir Árnessýslu og afskipti mest höfð af mönnum sem voru að koma af veiðum á Kjalvegi. Rætt var við fjórtán rjúpnaskyttur og lagði lögreglan hald á þrjú skotvopn, auk þess sem þrjú skotvopn voru færð tímabundið í vörslu lögreglu.

Tveir aðilar voru kærðir fyrir vopnalagabrot en þar var um að ræða skyttur sem höfðu ekki tilskilin leyfi meðferðis eða vopn í láni án lánsheimildar.

Í dagbók lögreglunnar kemur fram að ekki hafi verið mikið um afla hjá þeim sem rætt var við. Logn var á veiðilendum og heiðskírt en mjög kalt, eða -17°C.

Á sunnudag var svo farið í eftirlitsferð um Fljótshlíð og Emstrur, síðan inn á Syðra Fjallabak að Hafrafelli fremst á Rangárvallaafrétti og svo upp Næfurholsveg og þaðan uppfyrir Galtalæk. Afskipti voru höfð af um fimmtán veiðimönnum í sjö hópum. Allir voru með allt sitt á hreinu en aðeins tveir með afla, sitthvorar 5 rjúpurnar.

Fyrri greinTveir handteknir eftir útafakstur
Næsta greinAnnar sigur Þórsara