„Átti ekki von á því að einhver myndi kaupa sér kaffibolla“

„Kaffi Krús hefur breyst mjög mikið frá opnun eins og eðlilegt er. Þegar staðurinn var opnaður voru í boði heimabakaðar kökur og kaldar samlokur.“

„Kaffihúsið var reyklaust en reyksvæði afmarkað með ósýnilegum vegg. Fastakúnahópurinn var upprennandi listamenn og oft mikil stemmning þeirra á meðal,“ segir Tómas Þóroddsson, veitingamaður á Kaffi Krús á Selfossi.

Kaffi Krús fagnaði nýverið 25 ára starfsafmæli en kaffihúsið er staðsett að Austurvegi 7 á Selfossi. „Starfsemin var öll á miðhæðinni og þá bjó vertinn á efstu hæðinni. Nú er allt húsið undir og sæti fyrir um 70 manns. Eldhúsið er í kjallaranum og matsalir á mið og efstu hæð,“ segir Tómas.

Fyrsta kaffihúsið úti á landi
„Þegar Anna Árnadóttir og Guðmundur Sigurðsson fengu þá hugmynd að opna fyrsta kaffihúsið utan höfuðborgarsvæðisins var fólk ekkert of bjartsýnt fyrir þeirra hönd og átti ekki von á því að einhver myndi kaupa sér kaffibolla þegar uppáhellingur var á hverju heimili. Fyrsti viðskiptavinur Kaffi Krúsar var Þorfinnur Valdimarsson heitinn. Hann var klárlega að sýna samstöðu með þessari framsæknu hugmynd að opna kaffihús í litlu þorpi,“ segir Tómas.

Tómas segir að þau reyni að bregðast eftirspurn viðskiptavina og eru nú farin að opna kl. hálf níu á morgnana. „Við bjóðum upp á morgunmat, beikon, egg og amerískar pönnukökur með sírópi. En það er eitt sem hefur ekki breyst og mun vonandi ekki breytast er að við bjóðum upp á heimabakaðar kökur. Sumar kökunar eru nýmóðins á meðan aðrar innihalda sígildar uppskriftir undan Eyjafjöllum frá fyrri hluta síðustu aldar.“

Nafnbreyting jók vinsældirnar
Að sögn Tómasar hafa sumar kökurnar þurft að aðlaga sig nútímanum. „Það er nú góð saga sem ég á af einni kökunni og lýsir ágætlega þjóðfélagsbreytingu sem hefur orðið síðustu ár. Sælgætisostakaka hefur verið í boði hér frá upphafi og alltaf sama uppskriftin. Uppskriftin inniheldur meðal annars kaffi ásamt nammikurli. Svo gerðist það að sala á Sælgætisostakökunni fylgdi alls ekki aukningunni sem varð á sölu á öðrum vörum og viðskiptavinir hættu að hrósa henni eins og áður hafði verið gert.“

„Á tímabili var ég að spá í að hætta með hana, en fannst það varla kostur því hún hafði verið til sölu hjá okkur í 25 ár. Þá stóð ég jafnvel framni fyrir því að auka sykur- eða sælgætisinnihald en það var auðvitað afleitur kostur. Svo fékk ég þá ágætu hugmynd að endurskíra hana, nú heitir hún Mocca-Daim ostakaka og væntingar viðskiptavina fyrir einhverju dísætu eru úr sögunni og allir ánægðir. Þannig að það sem var sælgæti fyrir 25 árum síðan er það ekki endilega í dag.“

Suður Evrópubúar sérlega hrifnir af Krúsinni
Tómas segir að mesta breyting á Kaffi krús hafi sennilega verið þegar þau keyptu pizzaofninn og byrjuðu með eldbakaðar pizzur. Við það hafi kúnnahópurinn stækkað mikið.

Kaffi krús nýtur mikilla vinsælda hjá breiðum hópi fólks. „Kúnnahópurinn er ótrúlega fjölbreyttur, fólk á öllum aldri, jafnt heimamenn, Íslendingar á ferðinni og erlendir ferðamenn. Við eigum mikið af fastakúnum, sumarbústaðafólk sem kemur alltaf á föstudögum eða sunnudögum, Eyjamenn sem koma alltaf við á leið sinni í Landeyjahöfn og fólk úr nágrannasveitarfélögunum í verslunarferð. Staðurinn nýtur líka mikila vinsælda hjá erlendum ferðamönnum og ef ég á að taka einhvern hóp út þá virðast Suður Evrópubúar finna sig einstaklega vel á Krúsinni,“ segir Tómas.

Kjúklingasalatið sívinsælt
Aðspurður út í vinsælustu réttina segir Tómas að Kaffi krúsar kjúklingasalatið, California Club samlokan og Hnakkaborgarinn hafi verið á matseðli síðan árið 2010. „Ég þori varla að breyta þeim réttum þar sem þeir eiga marga aðdáendur. Við seljum mest af hamborgurum, en kjúklingasalatið er samt vinsælasti rétturinn.“

„Á næstunni erum við að fara breyta matseðlinum og meðal nýjunga þá erum að taka inn veganrétt í fyrsta sinn, en grænmetisréttirnir okkar eru í mikilli sókn. Kaffi krús er búin að festa sig í sessi sem einn vinsælasti veitingastaður Suðurlands og vonandi verður Kaffi Krús enn til eftir 25 ár,“ segir Tómas glaður í bragði að lokum.

Fyrri grein„Þetta er tækifæri sem kemur bara einu sinni“
Næsta greinFólki ráðlagt að vera ekki í nágrenninu að óþörfu