„The show must go on“

Leikkonan Hrefna Clausen varð fyrir því óláni í síðustu viku að handleggsbrotna á sýningu á verkinu „Vertu svona kona“ sem Leikfélag Selfoss sýnir þessa dagana.

„Persónan sem ég leik í sýningunni er skáldkona sem er stöðugt með hugann við skrifin sín. Stuttu fyrir hlé, arkar hún út í sal í leit að réttu orðunum fyrir umræðuefnið sitt. Síðastliðið föstudagskvöld, þegar ég er komin fram í miðjan salinn og hef rétt náð að segja síðasta orðið, hrasa ég í tröppu og flýg „tignarlega“ fram fyrir mig. Ósjálfrátt bar ég fyrir mig hægri handlegginn sem brotnaði í fallinu,“ segir Hrefna í samtali við sunnlenska.is.

„Ég heyrði eftir á að áhorfendur sem næst sátu hefðu velt því fyrir sér hvort þetta væri hluti af sýningunni enda reis skáldkonan samstundis upp aftur og hélt ferð sinni áfram út úr salnum eins og ekkert hefði í skorist.“

Hrefna segir að svo heppilega vildi til að næsta atriði á eftir er fjörugt og fyndið með hressilegri tónlist sem náði strax að fanga athygli áhorfenda. „Skáldkonan, sem á ekki aftur innkomu á sviðið fyrr en nokkru eftir hlé, gat því laumast baksviðs nokkuð aum, án þess að láta á miklu bera.“

Kom ekki til greina að stöðva sýninguna
Aðspurð segir Hrefna að það hafi ekki komið til greina að stöðva sýninguna og fara strax til læknis. „Ég fékk góða aðhlynningu í hléi frá meðleikurum og baksviðsfólki. Þar að auki er sagt; „The show must go on“, er það ekki?“

Ekki stendur til að fá aðra leikkonu til að leysa Hrefnu af en síðustu sýningar á verkinu eru næstu helgi. „Ég stefni að því að leika mitt hlutverk á þeim sýningum sem eftir eru, svo framarlega sem beinin halda.“

Svo kaldhæðnislega vill til að texti sýningarinnar byggir að miklu leyti á textum rithöfundarins Margaret Atwood úr bókinni Good Bones, Góð bein.

„Ef leikari gerist svo klaufskur á annað borð að brjóta bein á leiksýningu, er þá ekki skást að velja til þess leikverk sem byggir að mestu á textum úr þessari bók,“ segir Hrefna létt í bragði að lokum.

Fyrri greinLangþráð mark hjá Viðari Erni
Næsta greinÞórsarar fá nýjan leikmann