„Mjög spennt fyrir fyrstu Hrekkjavöku Selfyssinga“

Næstkomandi þriðjudag verður haldið upp á Hrekkjavökuna á Selfossi. Er þetta í fyrsta sinn sem það verður gert á skipulagðan hátt.

„Ég sá fyrirspurn inni á Facebookhópnum Íbúar á Selfossi hvort stemmning væri fyrir því að halda uppá Hrekkjavökuna á Selfossi. Svörin voru svo að sjálfsögðu misjöfn en ég held að flestir séu jákvæðir fyrir þessu,“ segir Elísa Björk Jónsdóttir í samtali við sunnlenska.is en hún sér um að skipuleggja Hrekkjavökuna á Selfossi.

Elísa segir að til að vera ekki að skapa leiðindi eða neikvæðni inn á íbúasíðunni ákvað hún að búa til sér hóp á Facebook þar sem þeir einstaklingar sem eru til í þetta getað spjallað saman og ákveðið í sameiningu hvernig framkvæmdin væri best.

„Hrekkjavakan hefur ekki verið haldin svona áður hér í bæ. Félagsmiðstöðin hefur haldið einhver böll fyrir krakkana, en að ganga í hús eins og gert er erlendis hefur ekki verið gert áður.“

Fólk setji kerti við útidyrnar
Að sögn Elísu verður Hrekkjavakan ekki haldin á einhverjum ákveðnum stað heldur verður henni fagnað þar sem börn eru velkomin.

„Fyrirkomulagið verður í raun frekar einfalt. Þar sem börn eru velkomin er fólk beðið um að setja kerti út við hurð hjá sér 31. október næstkomandi, milli klukkan 18 og 20 og þá vita börnin að þar er óhætt að banka án þess að vera að ónáða og fá eitthvað gott í pokann sinn.“

„Til þess að gera þetta enn einfaldara hef ég beðið fólk um að senda mér heimilisfangið sitt og svo ætla ég að útbúa lista sem verður aðgengilegur inni á Facebook grúppunni okkar. Einnig er ágætt að senda upplýsingar um það hversu mörg börn frá þínu heimili ætla út á þriðjudaginn til þess að eiga pottþétt nóg fyrir alla,“ segir Elísa og bætir því við að Hrekkjavakan sé fyrir alla, óháð aldri. Eina skilyrðið er að vera í búningi.

„Ef fólk hefur áhuga á því að vera með er um að gera að bæta sér í hópinn okkar á Facebook, senda mér svo upplýsingar um heimilisfang og fjölda barna sem ætla að taka þátt frá þínu heimili. Þú þarft samt ekki að eiga börn til þess að vera með, ef börnin eru velkomin að þínu heimili þriðjudaginn 31. október þá er það frábært.“

Hrekkjavakan er íslenskur siður
„Ég er mjög spennt fyrir þessari fyrstu Hrekkjavöku okkar Selfyssinga og vonandi er hún komin til að vera. Ég kynntist þessari hefð sjálf þegar ég var í Bandaríkjunum 16 ára gömul og í mörg ár hef ég skreytt hjá mér með graskerjum og allskonar skemmtilegum hrekkjavökuskreytingum. Í nokkur ár hefur elsta dóttir mín boðið vinkonum sínum í Hrekkjavökupartý-náttfatapartý og nú í ár tók sonur minn við og fékk að bjóða bekknum sínum.“

„Við mælum allavega með þessar bráðskemmtilegu og óhugnalegu hátíð sem er nú ekki útlenskari en svo að hún þekktist hér á Íslandi lengi vel á árum áður. Hlökkum til að taka á móti vampírum og varúlfum, draugum og öllum hinum skemmtilegu vættunum sem verða á ferðinni á þriðjudaginn milli 18:00-20:00. Gleðilega Hrekkjavöku!“ segir Elísa að lokum.

Facebookhóp Hrekkjavökunnar á Selfossi 2017 má finna hér.

Fyrri greinÚtgáfuhátíð fjögurra bóka
Næsta greinSérsveitin kölluð til vegna handtöku í Árborg