Hafna ósk um hærri vindmyllur

Sveitarstjórn Rangárþings ytra hefur hafnað ósk Biokraft ehf. um að reisa hærri vindmyllur í Þykkvabæ í stað þeirra tveggja sem þar hafa staðið síðan 2014.

Önnur vindmyllan eyðilagðist í eldsvoða í júlí síðastliðnum. Biokraft ráðgerir að fjarlægja báðar vindmyllurnar af stöplum sínum og setja aðrar í staðinn síðar. Nýju myllurnar snúast hægar, framleiða meiri orku og eru 96 metra háar í efstu stöðu spaða, 21 metra hærri en núverandi myllur.

Málið var rætt á síðasta fundi sveitarstjórnar sem gerði ekki athugasemdir við að myllurnar yrðu fjarlægðar, hvort sem það er gert vegna tjóns á annarri þeirra eða báðum. Ekki var hins vegar fallist á að veita heimild til uppsetningar á hærri myllum, fyrr en samþykktar hafa verið breytingar á gildandi deiliskipulagi.

Sveitarstjórn bendir jafnframt á að Biokraft er heimilt að óska eftir framkvæmdaleyfi hjá skipulags- og byggingafulltrúa Rangárþings ytra fyrir uppsetningu á vindmyllum sem rúmast innan gildandi deiliskipulags.

Fyrri greinGröfutækni bauð lægst í ljósleiðarann
Næsta greinDagný skoraði tvö í mögnuðum sigri Íslands