Unnið að stækkun Álfheima

Undirbúningur er nú hafinn að stækkun leikskólans Álfheima á Selfossi. Hönnunarvinna stendur yfir og gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á næsta ári.

Starfshópur á vegum sveitarfélagsins sem hafði það hlutverk að gera tillögur um framtíðarhúsnæði leik- og grunnskóla lagði til að næstu skref varðandi stækkun leikskóla yrðu þau að byggja við leikskólana Álfheima og Árbæ og fjarlægja bráðabirgðahúsnæði sem nýtt hefur verið við báða leikskólana í um 10 ár.

Ákveðið var að byrja á leikskólanum Álfheimum og hefur Helgi Bergmann, arkitekt hússins, verið fenginn til þess að gera tillögu að viðbyggingu við skólann, þar sem verði nýjar leikskóladeildir. Jafnframt því sem húsnæðið verður stækkað verður starfsmannaaðstöðu og eldhúsi breytt.

Að sögn Ástu Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra sveitarfélagsins, er gert ráð fyrir að verklegar framkvæmdir hefjist á næsta ári og að nýtt húsnæði verði tekið í notkun að hausti 2019.

Fyrri greinAð óbreyttu þarf að grípa til sársaukafullra aðgerða
Næsta greinHaustið fer vel af stað