Sautján tillögur bárust

Í sumar hefur staðið yfir hönnunarsamkeppni vegna fyrirhugaðs hjúkrunarheimilis á Selfossi. Skilafresturinn rann út í síðustu viku og bárust sautján tillögur í keppnina.

Dómnefnd er nú að störfum og er áætlað að niðurstaða liggi fyrir um miðjan október. Tillögurnar verða þá kynntar og hafðar til sýnis á Selfossi.

Kostnaður við hönnun og byggingu hússins skiptist á milli ríkisins og Sveitarfélagsins Árborgar þannig að ríkið greiðir 84% og sveitarfélagið 16%. Áætlað er að hlutur Árborgar, með kaupum á húsbúnaði, muni nema um 300 milljónum króna.

Sveitarfélögin í Árnessýslu stóðu saman að því að þrýsta á um að verkefnið yrði að veruleika og hafa mörg þeirra hvatt ráðhetta til þess á síðustu vikum að tryggja að heimilið verði fyrir 60 íbúa en ekki 50 eins og kveðið er á um í samningi um verkefnið sem gerður var fyrir um ári síðan. Eftir lokanir hjúkrunarheimila á Kumbaravogi og Blesastöðum fjölgar hjúkrunarýmum aðeins um fimmtán með nýbyggingunni á Selfossi.

Fyrri greinGuðlaugur sýnir í Listagjánni
Næsta greinVefsetur um íslenskar skáldkonur